BLOGGER TEMPLATES - TWITTER BACKGROUNDS »

þriðjudagur, október 30, 2007

Ný tölva

Stúlkan komin með nýja tölvu - um sólarhringi eftir að sú gamla gafst upp var hún komin með nýja.

Enda ekki hægt að vera tölvulaus í námi, bara gengur ekki upp. Nýja tölvan er með litlum skjá, 12" og það þarf að venjast því. En ég tók fram yfir að hafa litla og létta tölvu sem auðveldara væri að ferðast með og ekki mikil fyrirferð í.

Er að venjast litlu sætu tölvunni minni og hlakkaði þessi ósköp til að komast heim til hennar í kvöld :)

mánudagur, október 29, 2007

Tölvan dáin

Tölvan mín er dáin - dó í hádeginu í gær.

Fékk síðan skrifað upp dánarvottorð kl.21.10 í gærkvöldi.

Var smá sorgmædd í gær en vissi svo sem að mundi eflaust koma að þessu, hún hefur eflaust kannski ekki verið sátt við að vera straujuð á föstudagskvöldið, enda hefur hún verið mér góð í 4 ár og án nokkurra stærri vandamála.

Er líka með öll gögnin mín þannig að ég tapaði engu af tölvunni minni sem betur fer annars væri ég í þónokkuð meira uppnámi.

En tímabært að halda áfram og er farin að skoða aðrar tölvur en þá er bara að ákveða kaupin!

#vona að tölva hafi verið rétt notuð því ég man aldrei hvort maður segir talva eða tölva#

föstudagur, október 26, 2007

Fegin

Nú er ég fegin að búa ekki í vesturbænum!

En ætli rottufaraldur sé ekki hér líka - vonandi fara þær samt ekki að koma upp um klósettið hjá mér.

###

Já alveg rétt - er að hugsa um að ná mér í Ástralskan námuverkamann ;)

Verðmæti

Value is in the eye of the beholder.

Hljómaði eitthvað betur á ensku.

Allavega var að skila verkefni í Seminar þar sem við áttum að taka afstöðu til þess hvort verðleggja ætti náttúruna og koma með rök fyrir því.

Það merkilega við þetta allt saman (að mér finnst) að ég hafði að ég held ákveðna skoðun á þessu máli en eftir því sem maður lærir meira því óvissari verð ég. En það er heldur ekki flest svart eða hvítt í þessum heimi....

Hugsa að afstaða mín í dag sé beggja blands, jú vissulega ætti að verðleggja sumt en annað ekki en þá kemur sú klemma upp - hvað á að verðleggja og hvað ekki.

Til að mynda finnst mér fráleitt að fyrirtæki geti sett mengandi úrgang frítt út í andrúmsloftið, vatnið eða hvað sem það er. Finnst ekki að samfélagið ætti að borga fyrir mengunina heldur sá sem mengar.

En þar sem verðmætamat fólks er mismunandi getur verið mjög erfitt að setja verðmiða á náttúruna enda meira en bara fólkið sem þarf að taka tillit til heldur líka vistkerfisins. Eins vill það oft gleymast sú þjónusta sem við höfum af umhverfinu og tökum sem sjálfsögðum hlut.

###
Var í tíma í gær og tók mig smá tíma að fatta að kennarinn væri að tala á íslensku, mér til mikillar skelfingar þá rann upp fyrir mér að ég skildi ekki meira þótt hann talaði íslenskuna heldur en enskuna.

Var síðan í dæmatíma áðan (í sömu námsgrein) þar sem aftur var talað íslensku þar sem enskumælandi fólkið var ekki á staðnum en þar var hellings af ensku slettum. Því eru svo mörg orð sem maður veit ekki alveg hvað er á íslensku né heldur kennarinn ;)

En jæja þá er að snúa sér að gera kókosbollunammið..... EIA verður að bíða aðeins.

fimmtudagur, október 25, 2007

Í ruglinu

Sveitaloftið á greinilega miklu betur við mig - minnsta kosti svefnlega séð, nema það sé vinnan þar sem hefur svona góð áhrif á mig að ég fari í flestum tilfellum snemma að sofa.

Það er ekki hægt að segja það sama núna - fer alltof seint að sofa sem þýðir að ég er komin í "ruglið". Fer seint að sofa og því þreytt á daginn og hef ekki fulla orku.

Er svo mikið betra þegar maður fer snemma að sofa og með reglu á svefinum. Já svona eins og litlu börnin.
###

Tölvan mín er að fara í allsherjar yfirhalningu - keypti flakkara í gær og er að henda öllu dótinu mínu yfir á hann.

Verður spennandi að sjá hvort hún taki við sér

###
Ætla að óska brúðhjónum - sem voru að ganga í hjónaband í dag innilega til hamingju og svo að sjálfsögðu vinunum sem eiga brúðkaupsafmæli í dag - að ég held 6 ára brúðkaupsafmæli - getur það verið?

En allavega innilega til hamingju öll fjögur :)

laugardagur, október 20, 2007

Ansans

Ég braut klósettsetuna - borgar sig ekki að þrífa :(

Mig langar í klósettsetu ef einhverjum langar að gefa mér :)

###
Aftur var ég úti á föstudagskvöldi og hélt lengur út í þetta skipti. Með þessu áframhaldi þá verð ég úti alla nóttina og fram á morgun þegar veturinn er úti.

Gekk aftur heim og byrjaði þetta litla að rigna þegar ég var svona hálfnuð og mikið var rigning eitthvað köld.

Er annars að láta mig dreyma þessa dagana um ákveðið plan. Plan sem nær til ársins 2009 - jamm hrikalegt alveg hreint.

Spurning hvort eitthvað verður af þessu þar sem mikið af þessu snýst um peninga. Ætla ekki að upplýsa á blogginu hvað þetta er fyrr en eitthvað af þessu er komið á hreint en er alveg velkomið að kíkja á mig og/eða heyra í mér og athuga málið.

En læt mig dreyma á meðan!

miðvikudagur, október 17, 2007

17-25

Það er fólk svona á aldri við ykkur.

17-25 ára


hahahhahahaha

mánudagur, október 15, 2007

Lífstíll

Las í dag í mogganum um 3 einstaklinga sem eiga ekki bíl og það sé hluti af þeirra lífstíl.

Ég á ekki bíl.

En hef ekki talið það sé einhver ákveðin lífstíll hjá mér sem það er náttúrulega samt hluti af því.

Ég á ekki bíl vegna þess

*hef ekki efni á að reka hann eins og staðan er í dag
*ef ég hefði efni á því mundi ég ekki tíma því :)
*vil eyða mínum pening í annað en bíl eins og til dæmis að ferðast

þetta eru helstu ástæðurnar fyrir því að ég á ekki bíl, ekki það að ég sé svo umhverfisvæn - tel það bara vera bónus (surplus), því ef mér er boðið far þá oft stekk ég á það eða ef mér býðst að fá lánaðan bíl eins og var í sumar. Þykir það alveg ótrúlega gott oft á tíðum.

Tala nú ekki um ef ég ætla í Bónus þá fæ ég lánaðan bíl til þess að þurfa ekki að burðast með pokana í strætó.

Stóri mínusinn samt við að eiga ekki bíl er að komast ekki út úr Reykjavík, geta ekki ferðast um landið. Og nei vil sko ekki ferðast með rútu um landið - það er bara til að komast á milli staða A og B - ekkert hægt að fara út fyrir það.

Snillingur

Ég var með systurdóttur mína um helgina - eða frá laugardegi til sunnudags.

Var hreint frábært að hafa hana hjá mér í sólarhring og þessi stelpa er algjör snillingur (að sjálfsögðu :)).

Skelltum okkur í sund og dáðist alveg hrikalega að henni þar - var nefnilega ekkert vatnshrædd eða neitt. Einnig gat ég ekki betur séð en að hún kunni smá að synda og stelpan ekki nema 2 ára, var meira svona hundavað en komst áfram.

Á sunnudagsmorguninn skelltum við okkur í sunnudagsskólann sem hún er vön að gera. En fórum í kirkjuna nálægt mér, eitthvað eirðarleysi greip þá stuttu og fórum við eftir hálftíma. Eftir það var bróðir hennar sóttur og svo haldið heim til foreldranna en eitthvað var Embla mín ekki sátt og vildi fara heim til Lindu frænku - voða sætt :)

Snillingurinn ég keypti kassa af íspinnum áður en systurdóttirin kom - gleymdi hinsvegar síðan að gefa henni ís :( fattaði það þegar ég var að svæfa hana að ég ætti ís í frystinum en var búin að gleyma því aftur morguninn eftir... algjör!

En vonandi verður þó ekki eins langt þangað til næst að hún gistir hjá mér og þau systkini bæði.

snillingar þurfa líka að sofa!

laugardagur, október 13, 2007

Áhugavert kvöld

Átti alveg áhugavert kvöld í gærkvöldi og óvænt :)

Var uppi í skóla til níu ásamt hópi af öðrum þar sem við vorum að reyna að leysa verkefni - en ég gafst upp klukkan níu enda líka orðin sársvöng þar sem ég var búin að vera þarna frá um fjögur.

Þegar ég fór sá ég sms frá GLP um að hún og aðrar landverjur færu á Ölstofuna og hvort ég mundi ekki koma. Því hoppaði ég úr strætó á Lækjargötu og fékk mér að borða, á meðan reyndi ég að hafa samband við þær dömur hvort væru komnar á ölstofuna - en kemst síðan að því að þær voru á Domo að borða.

Þannig að þegar ég er búin með minn Nonnabita fer ég á Domo þar sem hópur af umhverfisfræðingum er með þeim stöllum. Ég ílengist þar svona miða við að ég ætlaði bara að kíkja á þær. Fæ að smakka á aðalréttinum og fékk svo eftirrétt því tvær úr hópnum voru farnar áður en að honum kom.

Eftir að allir voru búnir að borða var haldið á ölstofuna og leiðinni þangað var ég "yfirheyrð" af pabba "þekkts" einstaklings af hverju ég hefði nú verið valið námið sem ég valdi.

En var alltaf á leiðinni að taka næsta strætó heim en kom af því að þeir hættu að ganga þannig að ég gekk heim í rignunni.

En var áhugavert og óvænt kvöld
###

Já og ég er komin með vinnu :) jeii - tvö kvöld í viku sem er fínt.

föstudagur, október 12, 2007

Umhverfisþing

Það er algjör sofandaháttur á mér... veit ekki hvar ég hef verið.

En það fer fram umhverfisþing í dag og á morgun, mig langar á þetta en var bara að komast að þessu núna að þetta umhverfisþing er :( þannig að ég er of sein.

Eru líka akkúrat að fjalla um það sem ég hef áhuga á. bleh... jæja verð víst þá bara að reyna pumpa út upplýsingum frá þeim sem ég veit að fóru þarna.

mánudagur, október 08, 2007

Skólamálin mín

Er ægilega hamingjusöm þessa dagana.

Er í hópavinnu með nokkrum og eigum við að finna grein/greinar um ákveðið málefni og hafa svo stuttan fyrirlestur um það.

Það sem gerir mig svo hamingjusama er að ein úr hópnum fann grein eftir höfund sem við ætlum að nota og þessi höfundur talar svona næstum því frá mínu hjarta.

Er svo ánægð að hafa fundið þennan prófessor og er með upplýsingar um miklu fleiri greinar eftir hana.

Þetta gæti jafnvel verið stór aðstoð fyrir mig í sambandi við hvernig eða um hvað mastersritgerðin mín verður :)

húrra fyrir því!

sunnudagur, október 07, 2007

Töðugjöld, appelsínugulur og skírn

Fór á töðugjöld hjá UST á föstudagskvöldið.

En töðugjöld eru semsagt hálfgerð uppskeruhátið landvarða, það er að segja landverðir sem voru að vinna á friðlýstum svæðum í sumar hittast og "gera" upp sumarið.

Alltaf gaman að hitta landverði og hitta hitt starfsfólkið að sjálfsögðu.

Þegar við vorum úti í Búdapest þá kom appelsínuglur svoldíð sterkt inn hjá okkur íslensku landvörðunum en það byrjaði allt á því þegar við 5 landverjur vorum að leita okkur að veitingastað á laugardagskvöldi í Búdapest og búin að rölta smá um þá fékk ég nóg og sagði að við ættum að fara á veitingastaðinn með appelsínugulu stólana. Eftir það var ekki aftur snúið. GLP hélt áfram með appelsínugula þemað, keypti sér boli, töskur og skó sem voru appelsínugulir.

Nema það sló öllu út á föstudaginn á töðugjöldum þegar GLP sagði mér að hún hefði verið að mála stikur, þær yrðu aðeins öðru vísi heldur en þessar venjulegu því þær áttu að nota til þess að merkja mörk þjóðgarðsins. Þegar ég spurði hvaða litur það væri kom svarið.

Appelsíngulur!
###
Var í skírn í dag heima hjá Ellen systur og Atla en það var verið að skíra systurson minn :). Það var nú svoldið gaman að honum Arnari Má (systursonurinn) því hann næstum því talaði í kapp við prestinn. Eitthvað fyrir athöfn var hann eitthvað ergilegur en svo í athöfninni þá varð hann eitt sólskinsbros og blaðraði í kapp við prestinn.

miðvikudagur, október 03, 2007

Hitakerfi
Ég held ég sé komin með virkt hitakerfi í mér.

Yfirleitt er ég kuldaskræfa með meiru og alltaf kalt en seinustu daga hef ég upplifað í skólanum að mér er heitt. Gerði meira segja tilraun á þessu um daginn. Ég er nefnilega yfirleitt alltaf í flíspeysu (enda kuldaskræfa) en ákvað að prófa að fara í "þunna" peysu í skólann. Og ekki enn orðið kalt.

Skil bara ekki hvað er að gerast.

Svo til þess að toppa allt saman þá var ég heima hjá mömmu um daginn í mat og mér er alltaf kalt þar en nei, leið bara ágætlega og það undarlega var að mömmu var kalt.

Týpískt að ég hafi jinxað þetta núna!

###

Munur þegar ég elda að þarf ekki að gera elda næstu kvöld á eftir.

Eldaði á mánudagskvöldið sem dugði fyrir næstu 2 kvöld eftir það.