BLOGGER TEMPLATES - TWITTER BACKGROUNDS »

laugardagur, júní 30, 2007

Á toppnum

Komst á toppinn!


Tók hlutverk mitt mjög alvarlega og var seinust á toppinn á Snæfellsjökli á jónsmessunni en svo sem alveg eins og ég bjóst við. Á bara þessa einu mynd af mér á toppnum ásamt Hákoni en hann var ábyggilega búin að vera þar í klukkutíma áður en ég kom á toppinn. Vorum með talstöðvar með okkur og eina gagnið sem var af þeim þegar athugað hvar ég væri og til þess að hvetja mig upp ;)

Guðrún Lára tók video af mér þegar ég var að komast á toppinn - var að sjálfsögðu spurð af því hvernig væri að vera komin á toppinn - eina sem mér datt í hug að svara að ég nennti ekki að labba niður aftur!

En mikið búið að vera að gera, skyndihjálparnámskeið og vorum einhverja 4 tíma með fuglafræðingum um daginn sem var mjög skemmtilegt. Skoðuðum sjófuglana ásamt kríunni en þeir voru að skoða vörpin hjá þeim.

Dagskrá landvarða hefst um helgina og fyrsta ganga mín er á miðvikudaginn.

laugardagur, júní 23, 2007

Skrönglast

Jæja - ég stefni upp á Snæfellsjökul í kvöld.

Ef einhver stefnir á að fara með og er hræddur um að vera síðastur þá þarf sá ekki að hafa neinar áhyggjur því ég mun taka það að mér að vera síðust.

Fórnfús

föstudagur, júní 22, 2007

Jónsmessunæturganga

Á Jónsmessunótt verður ganga á Snæfellsjökul á vegum þjóðgarðsins. Gengið verður frá Jökulhálsi og hefst gangan kl. 21 (ATH breyttur tími frá áður auglýstri dagskrá) laugardaginn 23. júní. Leiðsögumaður verður Snævarr Guðmundsson fjallaleiðsögumaður og ljósmyndari.

Gengin verður fremur auðveld leið og tekur ferðin í heild um 4-6 klst. Góður útbúnaður er nauðsynlegur, góðir vatnsheldir gönguskór, hlý gönguföt (alls ekki gallabuxur!) og nesti. Mjög gott er að vera með göngulegghlífar og göngustafi. Mæting er við snjóröndina á Jökulhálsi uppfrá Arnarstapa. Skráning og nánari upplýsingar í símum 436 6860, 436 6888 og 822 4009 eða á netfanginu snaefellsjokull@ust.is

ATH Ekki verður farið á Jökulinn nema aðstæður verði góðar svo fólki er bent á að hafa samband samdægurs eða daginn áður til að kanna stöðuna.

mánudagur, júní 18, 2007

Dugleg

Finnst ég hafa verið rosa dugleg í fríinu mínu.

Búin að mála og koma hillunum upp aftur - reyndar þarf að laga neðstu hilluna en það gerist næst þegar ég kem í frí.

Búin að ákveða húsgögnin sem ég ætla að kaupa mér

Búin að hitta fólk og hund.

Búin að fara í langan og góðan göngutúr.

Á reyndar eftir að gera leiðinlegan hlut eins og finna mér sundbol og strigaskó.

###

Í einu af þessum fólkshitting flugu nokkuð áhugaverð og skemmtileg komment. Ég fór nefnilega að tala um orðræðu.

Kom því upp að ekki væru um feitar konur að ræða heldur konur með fituheilkenni. Besta setning kvöldsins var hinsvegar manneskjan sem sagði: "Ég held ég sé komin með anorexíu því ég sé feita konu þegar ég lít í spegilinn"

Því að sjálfsögðu þó að um háalvarlegt mál sé um að ræða eins og anorexíu þá verður maður nú líka geta haft húmor fyrir hlutum.

föstudagur, júní 15, 2007

Mála

Aftur byrjuð að mála.

Í þetta skipti er það gangurinn. Búin með eina umferð á loftið og á reyndar eftir að kaupa málninguna á vegginn.

Íbúðin mín er ekki stór en samt tekst þessum gangi að hafa 6 dyrakamra.

Bara fjör

fimmtudagur, júní 14, 2007

Í bænum

Jæja komin í bæinn í smá frí!

Þurfum víst annað slagið að fá svoleiðis - er samt farin að sakna pínku sveitarinnar og ég sem kom bara í dag.

Var þrátt fyrir það mjög ljúft að koma í íbúðina mína en þegar ég gekk svo út í búð í dag þar sem ísskápurinn minn er galtómur (erfitt að halda "heimili" á tveimur stöðum) þá fannst mér ekkert voða ljúft að ganga í steypunni innan um bílana og húsin!

Ekki ferska sveitaloftið!

Var líka mun skemmtilegra að hlaupa eftir rollum í gær í hrauninu heldur en ganga þessa vegalengd út í búð.

Jamm fór í smalamennsku í gær - reka rollur úr friðlandinu á Búðum. Var fyrst með girðingamanninum á sexhjóli þar sem við vorum að sækja ýmislegt rusl og ég hafði séð rollur innan girðingar þá fórum við í smalamennskuna eftir að við vorum búin að ná í ruslið.

Annars held ég að ég sé hætt að vera dekurbarnið hjá mömmu þar sem mér tókst ekki að bjóða mér í mat til hennar í kvöld.

þriðjudagur, júní 12, 2007

Úti

Mér var hleypt út af gestastofunni í dag!

Þess í stað fékk ég að þræla ;) - tókum niður vörðu í dag, tilraun til að bjarga henni undan verktökunum sem eru að gera veginn. Hver steinn var merktur og myndaður og svo þurfti að bera þetta allt saman upp smá brekku og setja á pallinn á bílnum og flytja svo í geymslu. Voru um 105 steinar - og fimm steinar/hellur enn á staðnum þar sem var aðeins of þungt fyrir mig að bera. Verðum að leyfa Hákoni að bera smá ;)

Ekki nóg með að ég sé landvörður heldur er ég orðin ljósmyndafyrirsæta líka.... held það sé samt ekki í kjarasamningum.

mánudagur, júní 11, 2007

Tekur á

Það tekur á að keyra í gegnum þjóðgarðinn.

Verið er að vinna í og undirbúa að malbika Útnesveg sem er akkúrat vegurinn sem liggur í gegnum þjóðgarðinn. Efnið sem þeir nota í veginn er tekið úr þjóðgarðinum og finnst svo sárt að sjá stórar vinnuvélar vera að taka hóla og moka úr þeim og mala grjót og svo koma stórir haugar af möluðu grjóti við veginn. Og ég keyri þarna framhjá tvisvar á dag.

Það er líka hluti þess að vegurinn er slæmur fyrir jökul og fólk þarf að sjá til þess að varadekkið sé með og sé í lagi ;)

laugardagur, júní 09, 2007

Gestastofan

Er núna 5 daginn minn í röð á gestastofunni og á 3 eftir. Ástæðan fyrir því að ég er svona lengi er sú að Hákon er í fríi og ekki komin annar landvörður á svæðið.

Gestastofan hjá okkur er rosa flott :) - ég varð mjög hrifin af henni þegar ég sá hana fyrst í fyrra og svo er nánast annar hver gestur sem kemur hingað sem hrósar gestastofunni. Eitt það skemmtilegast við hana er að það er hægt að prufa ýmislegt og finnst mér skemmtilegast þegar fólk prufar. Til dæmis eru skinnskór hér sem hægt er að prufa að ganga í hrauni og mér finnst bara alltof sjaldan sem fólk prufar þá svo eru líka aflraunasteinar sem krakkar og fullorðnir geta prófað að lyfta ásamt fleiru. Bara drífa sig og sjá gestastofuna :)

###
Meira af dagskránni en það er mikið að gerast um næstu helgi en ég reyndar missi af því öllu þar sem ég verð farin í frí. En hér kemur það
Er rebbi heima?
Heimsókn að refagreni
Laugardaginn 16. júní kl. 14 – Farið verður að refagreni í ábúð. Staðsetning nánar auglýst síðar.
Lestu blóm?
Dagur villtra blóma
Sunnudagurinn 17. júní er samnorrænn dagur villtra blóma og verður af því tilefni haldin plöntugreiningarkeppni í léttum dúr við Rauðhól. Keppnin er fyrir unga sem aldna og hefst kl. 16. Plöntuhandbækur leyfðar. 2-3 klst.

###
Jónsmessunæturganga á Snæfellsjökul 23. júní
Á Jónsmessunótt verður ganga á Snæfellsjökul. Gengið verður frá Jökulhálsi og hefst gangan kl. 23 laugardaginn 23. júní. Hafið með ykkur nesti og hlý föt. 4-6 klst.
Helgiganga undir Jökli 6.-7. júlí Tveggja daga helgiganga Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og Ingjaldshólskirkju. Fyrri daginn er gengið frá Saxhóli um Prestahraun eftir farbæn við Saxhól kl. 19:30 og lýkur göngunni um 2:30 við Ingjaldshólskirkju með klukknahringingu og stuttri helgistund. Seinni gangan hefst við Einarslón kl. 16 og lýkur við Hellnakirkju með næturmessu um kl. 22:30. Leiðsögumenn verða Dr. Pétur Pétursson og Sæmundur Kristjánsson.

Það sem ég er spenntust fyrir því mér hefur alltaf langað til þess að ganga alla ströndina eru þessar göngur (reyndar getur verið að dagsetning á seinustu göngu breytist):
Ströndin eins og hún leggur sig!Í sumar verður hafin ganga eftir endilangri strönd þjóðgarðsins með fróðu leiðsögufólki. Þrír áfangar verða gengnir í sumar og áformað að klára ströndina næsta sumar.
Fimmtudaginn 12. júlí kl. 19
Krossavík – Þórðarklettur. Fjörulíf og saga. 3-4 klst. Leiðsögumenn verða Sæmundur Kristjánsson og Erla Björk Örnólfsdóttir.
Fimmtudaginn 26. júlí kl. 19
Hólahólar – Djúpalónssandur. Náttúra og vermennska. 3-4 klst. Leiðsögumaður verður Sæmundur Kristjánsson.
Laugardaginn 18. ágúst kl. 11
Skálasnagi – Beruvík. Fuglar og saga. 5-6 klst. Leiðsögumaður verður Sæmundur Kristjánsson.

###
Ljósmyndasýning á Djúpalónssandi í sumar
Gunnar Ólafur Sigmarsson opnar sýningu á náttúruljósmyndum af Snæfellsnesi á Djúpalónssandi föstudaginn 25. maí kl. 18. Sýningin stendur fram eftir sumri.
Ljósmyndasýning í Malarrifsvita
Hollvinasamtök Þórðar frá Dagverðará standa fyrir ljósmyndasýningu í Malarrifsvita í sumar. Sýningin verður opnuð 30. júní og stendur til 5. ágúst. Opið verður laugardaga og sunnudaga milli 10 og 16.
Hlaupið undir Jökli 11. ágúst
Hlaupið undir Jökli verður haldið í fyrsta skipti þann 11. ágúst. Boðið verður upp á 4 vegalengdir, Amlóða 2,5 km, Hálfdrætting 5 km, Hálfsterkan 21,1 km (hálft maraþon) og Fullsterkan (heilt maraþon) 42,2 km.

Dagskrá

Föst dagskrá hjá okkur í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli byrjar 30. júní til 15. ágúst.

GAMAN SAMAN - kl. 11 – 12 laugardaga
BARNA- OG FJÖLSKYLDUSTUND við tjaldsvæðið á Arnarstapa.
Landverðir taka á móti börnum alla laugardaga kl. 11 við tjaldsvæðið á Arnarstapa og rannsaka með þeim náttúruna, segja sögur, fara í leiki og margt fleira skemmtilegt. Barnastundir eru miðaðar við börn 6-12 ára. Foreldrum er velkomið að taka þátt með börnum sínum. 1 klst.
GÖNGUFERÐIR MEÐ LEIÐSÖGN
FÓLKIÐ OG NÁTTÚRAN - Sunnudagar kl. 14, Búðir – Frambúðir.
Gestir hitta landverði við Búðakirkju kl. 14. Auðveld ganga í gegnum blómaskrúð og hraunmyndanir að Frambúðum þar sem minjar eru um útgerð fyrri tíma. Þeir sem vilja geta fengið tilsögn um göngu að Búðakletti. 1-2 klst.
ÆVINTÝRI SJÁVARINS - Miðvikudagar kl. 14, Djúpalónssandur.
Gestir hitta landverði við bílastæðið á Djúpalónssandi. Gengið um Djúpalónssand og nágrenni og fjörulífið skoðað. 1-2 klst.
LÍFIÐ Í BJARGINU - Laugardagar kl. 14, Svalþúfa – Lóndrangar.
Landverðir taka á móti gestum hjá bílastæðinu við Svalþúfu. Rölt er fram á Þúfubjarg þar sem Kolbeinn og kölski kváðust á forðum. Í bjarginu er mikið fuglalíf og stundum lætur tófan sjá sig á þessum slóðum. Gengið að Lóndröngum en þar eru minjar um vermennsku fyrri tíma. 1 klst.

föstudagur, júní 08, 2007

Diesel

Fékk sérsendingu af diesel frá Hellissandi í gær þannig að ég varð ekki olíulaus á "heimleið" í gær. Bossinn minn fékk sér bíltúr til mín með diesel olíu. Reyndar var "bensín"ljósið á nánast alla leið - bílinn hefur ábyggilega hrissast svo mikið á leiðinni að ljósið fór ;)

fimmtudagur, júní 07, 2007

Nú er það ljótt

Skipti um bíl í morgun og tók jeppann þar sem hann var fullur af dóti sem átti að fara á gestastofu. Þegar ég var að nálgast afleggjaran að Djúpalónssandi tók ég eftir því að bensínsljósið kviknaði.

Það eru bensíndælur/diesel á Arnarstapa en einhver vandræði með dælurnar og ég hef ekki hugmynd um hvort bílinn nái að fara yfir á Hellissand þegar ég er búin á gestastofunni en það eru um 35 km á milli.

###
hmm... var eitthvað ekki nógu sátt í gær og ákvað að skrifa tölvupóst til vinar til þess að losna við þetta. Fékk svar í morgun :) gott að fá svona uppörvandi póst.

miðvikudagur, júní 06, 2007

Veðrið

Í morgun var hvasst, rigning og þoka. Eftir hádegi milli 13-14 þá létti aðeins til og kom sólin og var bara hið fínasta veður. Nema maður sá þokuna upp við Snæfellsjökul. Núna er aftur komin þoka á Hellnum.

Hinsvegar er bara sól og blíða á Hellissandi skv símtali sem ég fékk áðan....

þriðjudagur, júní 05, 2007

Súlukast

Var stödd í Skarðsvíkinni á sunnudaginn og sá súlukast, en þá stinga súlurnar sér í sjóinn eftir æti. Var rosalega flott að sjá þetta, var með myndavélina en náði ekki nógu góðum myndum - þarf betri myndavél og linsu í það :) en hér má sjá tilraun til myndatöku.

Á sunnudeginum gekk ég einnig í Beruvík og á leiðinni tók ég þessar myndir en þessi ský sátu yfir Öndverðarneshólunum og Hellissandi.


Fyrr um morgunin fórum ég og Hákon í Hellnafjöru að tína upp afklippur sem einhver hefur hent í sjóinn :(

En annars er ég orðin ein í kotinu, Hákon farin í frí. Var reyndar gert grín af mér í morgun þar sem ég sat á kaffistofunni áður en Hákon og Guðbjörg fóru í bæinn og var með nafnspjaldið hans Hákons í barminum í staðinn fyrir mitt - hélt að þetta væri mitt :)

föstudagur, júní 01, 2007

Fleira

Jú það er meira búið að gerast heldur en að springa dekk hjá mér.

Á þriðjudagsmorgun tókum við Hákon á móti hópi krakka úr grunnskóla Snæfellsbæjar - held þetta hafi verið krakkar í 1-4 bekk. Komum í 3 hópum til okkar og hver hópur var um 30-35 krakkar. Sem betur fer voru 4 kennarar/leiðbeinendur með hverjum hóp. En þetta tókst vel hjá okkur :) - vorum með hópana um 30 mínútur og fórum með þá í tvo leiki. Fyrst áttu þau að finna fimm hluti sem eiga heima í fjörunni og fimm hluti sem ekki eiga heima í fjörunni og var þeim skipt upp í hópa. Einn strákur í hóp sem átti að finna fimm hluti sem ekki eiga heima í fjörunni varð frekar fúll og sagði að þau væru bara að vinna hahaha - fannst það frekar fyndið. Næsti leikur var vistkerfisleikurinn, tókst ekki vel með fyrsta hópinn (aðeins of ung sá hópur)en gekk vel í næstu tvo hópa sérstaklega í annarri umferð. Besta við það að kennurunum fannst þessi leikur góður og einn af þeim sagði að augu margra hafði opnast þarna :)


Náttúran


Eitt af föstum verkum hjá okkur er ruslatínsla, en í Skarðsvík er því miður gengið alveg rosalega illa um og nokkuð ljóst að þetta virðist vera helsti djammstaðurinn miða við brotnar flöskur og bjórdósir sem tínt er upp þar, bílastæðið við Írskrabrunn er síðan staður með öðrum hætti en þar tíndi ég upp þónokkra smokka og var það gert einnig í fyrrasumar.

Þó ánægjulegt að vita að fólk setur öryggið á oddinn!

Skipta um dekk

Já það sprakk hjá mér - og það fyrsta daginn minn úti við. Sem betur fer var þetta í lok dagsins.

En

Þegar ég tók eftir því að það var sprungið hjá mér (gerðist ekki með hvelli) þá var fyrsta hugsun sú að það eina sem kæmi í veg fyrir að ég gæti þetta væri að ég gæti ekki losað rærnar. Því þær eru oft svo hertar að ekki er lifandi leið að ná þeim af. Byrjaði að sjálfsögðu að finna varadekkið og tjakkinn og svo var hafist handa.

Ekkert mál - rærnar næstum því fljúga af, allavega það tókst og var rosa ánægð. Því næst tekk ég tjakkinn og er svo ekki að fatta hvernig hann virkar. Leitaði meira segja af handbókinni í bílnum til þess að athuga hvort standi eitthvað þar um tjakkinn en er ekki. Hmm.... frekar hálvitalegt að fatta ekki hvernig þessi tjakkur er að virka... eftir smá klór í hausnum ákvað ég að hringja í pabba, bara svona til þess að láta hann vita hversu mikil auli ég er ;) - og með kannski von um að allir tjakkar séu eins og hann gæti gefið mér smá hint hvernig hann ætti að virka... en ljósið kom þegar ég var að tala við hann og opnaðist fyrir mér hvernig þetta væri allt saman.

Kveð þá kallinn eftir smá spjall og byrja á að tjakka upp bílinn og ríf dekkið undan. Ekkert mál
Því næst er að koma hinu dekkinu undir en þarf að tjakka bílinn upp meira svo dekkið passi... byrja á því að tjakk en oppsss.... tjakkurinn grefst bara í mölina og fer niður... þannig að bílinn lækkar. Reyni aftur en bara það sama gerist. Hætti því aðgerðum því ég er að missa bílinn niður og ekki gott að hann lendi á öxulinum. Hringi því næst í Hákon á gestastofuna til þess að fá einhverjar hugmyndir um hvað ég get gert...hann stingur upp á spýtum til að setja undir en ekki nokkuð slíkt í nágrenninu. Dettur þá í hug að hringja í staðahaldarann á Gufuskálum þar sem ég er nú bara í næsta nágrenni (ástæðan fyrir gsm símasambandi)og athuga hvort hann getur bjargað mér með spýtur. Staðahaldarinn kemur á vettvang með þessar fínu spýtur - þrátt fyrir að ég hafi verið að trufla hann (var að steypa) og klárar að skipta um dekk fyrir mig.

Jamm kláraði þetta ekki ein :( en þar sem vegurinn fyrir jökul er hræðilegur (verið að undirbúa fyrir malbikun) þá á ábyggilega eftir að koma nokkrum sinnum fyrir í viðbót, sagði við kallinn á dekkjaverkstæðinu að við ættum örugglega eftir að koma oftar í sumar.

Þannig að ég hvet ykkur fólk ef þið komið á Snæfellsnesið í þjóðgarðinn að hafa varadekkið í lagi og keyra varlega.