BLOGGER TEMPLATES - TWITTER BACKGROUNDS »

föstudagur, ágúst 31, 2007

Komin heim

Jæja komin heim eftir sumarvinnuna þetta árið.

Voru blendnar tilfinningar þegar ég fór af Snæfellsnesinu í gær, búið að vera frábært sumar og ekki spillti veðrið fyrir.

Skólinn tekinn við hér heima og fór í tíma í morgun - ekki byrjaði það vel því strætóinn sem ég ætlaði að taka kom 12 mínútum of seint þannig að ég mætti of seint í tíma.

Aðeins um 2 vikur í Rúmeníuför - hlakka til. En úff að missa úr skólanum.....

miðvikudagur, ágúst 29, 2007

Stykkishólmur

Skelltum okkur í hólminn í gær eftir vinnu. Tilgangurinn var að heimsækja hana Þórunni og fá að sjá húsið sem hún býr í :) - en skelltum okkur í sund áður. Nota ferðina sko...

Vorum búin að plana að borða á Narfeyrarstofu en Þórunn bauð okkur í mat og úr varð alveg rosalega góð kvöldstund - húsið sem hún býr í er líka æði og góður andi þar inni.

Vorum svo vær að hún losnaði ekki við okkur fyrr en að verða eitt um nóttina og við því ekki komin heim á Gufuskála fyrr en að verða tvö.

Ekki laust við það að maður sé smá sybbin í dag!

þriðjudagur, ágúst 28, 2007

Djúpalónssandur

Í sumar höfum við landverðir orðið vör við að fólk sé að fá sér sundsprett á Djúpalónssandi og einnig heyrt af því.

Nú seinast var það hópur af fólki sem kom á Djúpalónssand á sunnudaginn - ég sá þau með handklæði og sundfatnað. Ég náði tali af einum manni og spurði hvort hann ætlaði að fara að synda.

Fékk jákvætt svar frá honum og bað hann vinsamlegast um að fara ekki því þetta væri hættulegur staður þar sem væri sterkur straumur og ekki sniðugt að fara að synda þarna.

Því miður hlustaði hann eða hópurinn ekki á mig og fór samt.

Enn sem komið er hefur ekki orðið neitt slys - sem betur fer.

En eitt sem ég skil ekki er að hvar fær fólk þessar upplýsingar - að sniðugt sé að fara að synda í sjónum á Djúpalónssandi?

föstudagur, ágúst 24, 2007

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull

Hingað til hef ég alveg borið traust til rútubilstjóra, bæði að þeir kunni að keyra og viti nú eitthvað um landið þar sem þeir eru nú svoldið á ferðinni.

Hins vegar rútubílstjórinn sem keyrði mig í bæinn fyrir viku síðan gerði það að verkum að ég missti andlitið (er enn að leita).

Hann vissi ekki um þjóðgarðinn - og hann var að keyra þar í gegn. Hann sem fór með túrista í gegnum þjóðgarðinn og stoppaði meðal annars á Djúpalónssandi.

Ég átti ekki til aukatekið orð.

Kristjón bróðir fór um daginn í fermingarferðalag í Vatnaskóg þar sem hann þrætti við prestinn um að það væri þjóðgarður á Snæfellsnesi.

Presturinn hélt nú ekki - væri sko enginn þjóðgarður á Snæfellsnesi. En Kristjón gaf sig ekki og var nú alveg viss þar sem systir hans væri nú að vinna í þjóðgarðinum!

Voðalega er fólk með á nótunum - þjóðgarðurinn er nú reyndar ungur, bara sex ára en halló!

Svo mynd af flotta steinvegginum sem sjálfboðaliðarnir gerðu.

Hákon getur stundum verið svoldið hættulegur og þurfum að setja hann í búr!

Neeee hann er öðlingsdrengur

Rebbi litli og Hákon, var seinasta daginn sem við heilsuðum upp á hann áður en hann fékk frelsið.

IKEA

Alveg er ég búin að fá nóg af viðskiptum við IKEA - eða reyna að eiga viðskipti við þá. Fór í vikunni því ég hafði hugsað mér að kaupa sófaborð sem mér leist vel á. Þegar komið var niður á lager þá sá ég ekki umrætt borð og spyr lagermennina um það. Þeir fletta upp í tölvu og segja mér að sé von á nýrri sendingu eftir 12 vikur.

Alveg dæmalaust - þegar ég ætla að fara að kaupa eitthvað í þessari verslun er það sem ég ætla mér að kaupa aldrei til og alltaf þarf ég að bíða.

Held ég hafi ekki þolinmæði í 12 vikur.

Heyrði líka frá öðrum viðskiptavini að hann hafi líka verið dálitið pirraður vegna þess að það sem hann ætlaði sér að kaupa var heldur ekki til.

###
Annars er ég komin aftur á fagra Snæfellsnesið eftir frí í bænum. Styttist nú samt í annan endan á þessari veru minni hér - rétt vika eftir.

Varð eitthvað svo fegin í gærkveldi að vera ekki hér í september. Fannst nefnilega eitthvað svo drungalegt á Gufuskálum þegar ég gekk út í þvottahús.

Svo er skólinn bara að fara byrja aftur......

þriðjudagur, ágúst 14, 2007

Aumingji

Ég er hræðilegur aumingji!

Kom á gestastofuna í morgun og þegar ég var að opna þá tók ég eftir fugli sem lá á stéttinni. Hélt hann væri dauður og ákvað að setja hann aðeins í burtu þegar ég væri búin að gera það sem ég þurfti.

Meðan ég var að vesenast tók ég eftir því að fuglinn var lifandi, og reyndi ólmur að fljúga eða komast í burtu en var að öllum líkindum vængbrotin.

Ekkert hægt að gera fyrir fuglinn og ég get ekki hugsað mér það að taka lífið hans.

Í staðinn er hann búin að þjást greyið.

Flaug síðan annar fugl hérna inn í morgun - mariuerla, og kom alla leið inn á skrifstofu. Tókst nú að veiða þann fugl og koma honum út.

###
Erum með rebba litla í okkar umsjón, er óttalega sætur og skemmtilegt að fylgjast með honum.

Hér sést hann kíkja út


Hlýtur að vera í lagi að fara út...

mánudagur, ágúst 13, 2007

Snæfellsjökull

Mynd tekin 27. maí af Snæfellsjökli


Og mynd tekin 13. ágúst af Snæfellsjökli


Vísindamenn hafa talað um að allir jöklir hverfi á næstu 200 árum hér á Íslandi. Snæfellsjökull verður ábyggilega einn sá fyrsti sem hverfur!

Laugardagskvöld

Hvað gerir stelpan svo á laugardagskvöldi?

Jú kemur "heim" um hálf átta um kvöldið og þá eru sjálfboðaliðarnir að grilla fisk- bæði íslenskir og enskir. Bjóða landvörðum í mat.

Ekki amalegt.

Skelfur svo úr kulda um kvöldið þar sem setið er úti til að verða tíu.

Skutlar svo íslensku sjálfboðaliðunum á Hellissand þar sem þeir gleymdu að þau væru á bíl....oppsss

Lætur svo ensku sjálfboðaliðana fara illa með sig í uno og black jack.

laugardagur, ágúst 11, 2007

Föstudagskvöld

Hvað gerir stelpan á föstudagskvöldi, ein heima og í brakandi blíðu.

Skutlar sér á Ólafsvík, kaupir sér ís og tekur DVD mynd. Fer síðan í herbergið sitt með tölvuna og glápir á The devil wears prada.

oh my god - allt fullt á Gufuskálum, af hundum. Er æfing fyrir leitarhunda og voru þeir með "samsöng" í gær (og víst kvöldið áður). Um miðnætti byrjaði gól og ýlfur og tóku þeir allir undir enda flestir hundarnir í bílunum. Byrjaði svo aftur í morgun um sex.

Ég þakka fyrir að eiga ipod á svona stundum.

###
Svo má sjá hér sjálfboðaliðana byrja á að hlaða vegginn.

föstudagur, ágúst 10, 2007

Útlendingar

Útlendingar geta verið fyndnir og stórskrýtnir.

Eitt það sem skemmtir mér einna mest þegar ég er á gestastofunni eru þegar Þjóðverjar fara úr sínum skóm og í skinnskóna sem þeir halda að séu inniskór og ganga á þeim um alla gestastofu.


Fyrir þá sem ekki vita þá erum við með skinnskóna svo fólk geti prófað að ganga á skinnskóm í hrauninu - en það er hraunstígur fyrir utan hjá okkur.

Rúmenía

Rúmenía - hér kem ég!

Já búin að panta flug til Búdapest í Ungverjalandi og það er víst búið að panta hostel þar. Eina sem á eftir að ganga frá er lest frá Búdapest til Deva í Rúmeníu.

Er búin að vera mjög tvístígandi hvort ég eigi að fara eða ekki.

En lítur ekki út fyrir að ég muni stoppa neitt í Kaupmannahöfn :( - flugið frá Búdapest og til Kaupmannahafnar var alltof snemma þannig að ég mun ekki ná því.

Styttist í að veru minni hér á Snæfellsnesi ljúki - á reyndar eftir að fara í eitt frí og svo aftur á Snæfellsnesið og svo heim.

fimmtudagur, ágúst 09, 2007

Fólk ekki eins og ég

Já er enn hissa þegar ég kemst að því að fólk er ekki eins og ég :)

Sem dæmi eru þessu blessuðu klósett. En ég virðist alltaf vera jafnhissa á því þegar þeim er ekki lokað. Það er að segja lokið ekki sett niður.

Nú hafa ábyggilega flestir heyrt mýtuna um það að konur tuði í karlmönnum að loka aldrei klósettunum - en sennilegast er það að setja ekki setuna niður því iðulega þegar ég kíki á kvennaklósettin á gestastofunni nú eða á Djúpalónssandi þá eru lokið uppi og því hafa kvenmennirnir ekki lokað klósettinu. Það finnst mér mjög skrýtið. Ég hefði tekið því ef þetta væru karlmenn sem umræðir útaf þessari mýtu... en þetta eru kvenmenn.

###
Er í einhverri krísu með að kaupa flugfar, get ekki ákveðið mig með hvenær ég fer út og hvenær heim þótt ég sé búin að ákveða það.

Er nefnilega á leið til Rúmeníu í september. Ætlaði mér að eiga helgi í Búdapest með nokkrum landvörðum áður en við höldum til Rúmeníu á námskeið. Fer tilbaka á undan hinum þar sem ég get ekki misst úr skóla í 2 vikur - eða finnst það of mikið. Var alltaf að spá í að eiga síðan líka helgi í Búdapest eftir námskeiðið en er núna að hugsa um að heilsa upp á Ásdísi og Anders í Kaupmannahöfn.... þarf bara að vita hvort þau séu heima við :)

###
Keyrði í fyrsta skipti með kerru aftan í bílnum í gær, keyrslan sjálf gekk alveg ágætlega en er afleit í að bakka :( - er ekki hress með það. Tókst nokkrum sinnum að bakka en kom oftar fyrir að Paul tók við og bakkaði. Var nefnilega með sjálfboðaliðum í gær að vinna. Vinna við að taka grjót sem á að nota til að búa til vegg.

laugardagur, ágúst 04, 2007

Já,nei

hmm....hef mjög oft fylgt þeirri reglu að hafi maður ekkert að segja eigi maður að þegja.

Því ætti ég ekki að vera að skrifa hér...

Náði að klára Harry Potter bókina á komudaginn minn hér á Snæfellsnesið. Vaknaði fimm um morguninn og byrjaði að lesa, las svo í rútunni og átti einungis eftir nokkrar blaðsíður þegar ég kom á Snæfellsnesið sem ég kláraði í hádegismatnum mínum.

Verð að fara lesa allar bækurnar aftur.... :)

Er að skríða saman - þegar ég talaði um að ég væri stirð þá fóru hlutirnir bara hríðversnandi. Gat ekki lyft höndunum upp yfir höfuð - ekki það að ég þurfi þess eitthvað dagsdaglega að lyfta höndum upp yfir höfuð...

jú vitleysa í mér - þegar maður fer í og úr bolum þá yfirleitt þarf að lyfta höndum... en hvað um það. Verra fannst mér að ég átti í erfiðleikum með að fara í og úr buxum. Líka að fara í og úr heita pottinum um seinustu helgi.

Tímarnir breytast og mennirnr með... eða ég. Orðin líka svo gömul að ég er eiginlega bara fegin því að vera að vinna um verslunarmannahelgina. Hér áður fyrr þurfti ég þess all oft að vinna þessar helgar og var frekar spæld. Fyndið að hugsa til þess að það eru 13 ár síðan ég fór á þjóðhátíð í Eyjum. Mér sem finnst svo stutt síðan :) en litli elsti bróðir minn er þar núna - árinu eldri heldur en ég fór þangað.