Kalt
Fyrsti strætódagurinn í dag og það var vibbalega kalt.
Bílinn fór í dag eftir 2ja mánaða dvöl hjá mér - hann kom sér einstaklega vel í desembermánuði í prófum, verkefnavinnu og jólum. Eftir jólin var ég alltaf á leiðinni að skila blessaða bílnum en eitthvað dróst það alltaf á langinn.
En núna er ég semsagt laus undan "oki" bílsins og er aftur orðin strætófarþegi sem er ekki svo slæmt ef maður þyrfti ekki að bíða eftir honum :) og það í þessum þvílíka kulda.
Takk fyrir afnotin og lánið á honum bræður - ég sendi svo reikning fyrir bensínnotkuninni því að sjálfsögðu var ég líka í "vinnu" við að liðka bílinn (hahahaha)
###
Að veðrinu
Ég hef einsett mér láta hið íslenska veður ekki pirra mig því það er voða lítið hægt að breyta því - ekki nema þá hvernig skapið er varðandi veðrið. Þannig að ef það er rigning þá er bara rigning, ef það er rok þá er rok.
En
Ég þoli illa kulda - þoli ekki að verða kalt. Gjörsamlega fer alveg með mig en þó það sem er skárra við kuldann heldur en hitann er að það er yfirleitt auðveldara að klæða af sér kulda eða á einhvern hátt reyna að hlýja sér, það er yfirleitt verra að reyna að kæla sig niður ef maður er í mjög heitu loftslagi.
en já viskudómar í boði Lindu :)
fimmtudagur, janúar 31, 2008
miðvikudagur, janúar 30, 2008
Námið mitt
Í einu faginu sem ég sit þá verða um 7 kennarar sem koma að því námskeiði og meðal annars fjöldi allur af hagfræðingum.
Um daginn vorum við með fyrsta hagfræðinginn nema ég sat hjá honum í kúrs fyrir ári síðan en held ég hafi loks séð ljósið.
Það er að segja að hann var að tala um ákveðið málefni og ég var alltaf tiltölulega ósammála honum - ekki það að ég sé eitthvað sammála honum núna en ég held ég fatti hvað hann meinar meðan ég lít ekki þannig á málið.
Útskýring:
Hagfræðingurinn var að taka sem dæmi að fyrirtæki kannski einhver verksmiðja noti á sem rennur þar hjá, hvort sem það er til þess að taka vatn, framleiða rafmagn eða losa úrgangsefni í ána. Ef engir annar er að nota ána þá er ekkert umhverfisvandamál.
Þannig að loksins fattaði ég hvað hann er að meina (að ég held)- það kemur einungis upp vandamál ef einhverjir tveir ólíkir hópar ætla að nota sömu auðlindina. Segjum að einhverjir aðrir vilja nota þessa sömu á til þess að stunda river rafting þá er það kannski ekki hægt því of lítið er af rennsli í ánni því verksmiðjan er að taka það til sín eða áin er of menguð til þess að river rafting sé óhætt. Þannig að þá þurfa þessir tveir að komast að samkomulagi hvernig hlutum skal háttað, annað hvort mundi verksmiðjan þá borga "skaðabætur" til hópsins sem vil fara í river rafting eða eitthvað annað.
Hinsvegar mundu margir aðrir líta á sem umhverfisvandamál því ef úrgangur sem er að menga ána þá líður lífríkið/vistkerfið fyrir það sem getur orðið alvarlegt vandamál. Einnig ef lítið rennsli er í ánni miða við eðlilegt er o.s.frv.
Ekki skrýtið að stundum skilur fólk ekki hvert annað þar sem ólík sjónarhorn á vandamál eru til staðar.
þriðjudagur, janúar 29, 2008
Stressuð
Það verður að viðurkennast að ég er pínku stressuð í dag.
Stressið fylgjir ákveðnu sem ég þarf að skila á föstudaginn og vegna misskilnings og misvísandi upplýsinga er ég á seinustu stund með allt og hafði nógan tíman fyrir. Þannig að ég er ekki sátt og hundfúl líka út í sjálfan mig - því hluti er líka mér að kenna.
En var að snúast í þessu í allan dag og hafði því engan tíma til þess að læra :( en þetta er eitthvað sem mig virkilega langar til og nýjustu hugmyndir hjá mér þá þarf ég þetta líka til þess að geta gert mastersverkefnið mitt.
jæja er stuttur og smá neikvæður póstur í dag - reyni að hafa jákvæðan næst ;)
föstudagur, janúar 25, 2008
Hausverkur
Fékk hausverk á miðvikudaginn :(
Í tíma á miðvikudeginum fann ég að hausverkurinn var á sveimi og "beið" eftir því að koma á fullum þunga. En ég kemst í gegnum tímann sem var mjög langur og síðan að bíða eftir kennaranum mínum sem ég ætlaði að hitta til þess að ræða við hana.
En þegar það var búið og ég gekk út í bíll kom hausverkurinn að fullum þunga en ég hélt áfram með það sem var planað hjá mér og eftir það fór ég til mömmu því ég vissi að ég þurfti að borða (og bróðir minn átti að vera búin að elda).
Kom þangað og leið eiginlega hræðilega og hafði síðan ekki lyst á matnum-nartaði í kannski 3-4 bita. En ákvað að fara þá heim enda páfagaukarnir alveg hræðilega hávaðasamir og bræðurnir stundum engu skárri ;)
En á leiðinni nánar tiltekið á Sæbrautinni kom fyrsta gusan, ekki hentugur staður til þess að stoppa og hvað þá að geta hlaupið úr bílnum. Kunni nú heldur ekki alveg við það svona sitjandi í bílstjórasætinu. Sá fyrir mér að vegfaranendur mundu hringja á lögguna sem mundi koma og taka mig vegna ölvunar undir stýri (sem að sjálfsögðu var ekki málið). En fljótlega eftir fyrstu gusuna kom sú seinni og þá var ég stopp á rauðu ljósi og sú þriðja þegar ég var að taka af stað.
Ég er greinilega að prufa mig áfram í skemmtilegum stöðum til þess að æla á, Kínamúrinn búinn, fjallaferð í Rúmeníu búin og svo var eftir náttúrulega að æla yfir sig allan undir stýri. Kýs ég það allra ógeðslegasta viðburð af þessum og klárlega vona ég að þetta sé sá ógeðslegast viðburður sem ég mun lenda í á þessu ári og þeim næstu.
Sorry pabbi að hafa ælt í bílinn þinn :( en hann slapp nokkuð vel þar sem allt fór á mig :)
Þoli ekki þennan hausverk!
mánudagur, janúar 21, 2008
Draumar
Er búin að komast að því að ég fíla ekki drauma - eða að dreyma þegar maður er sofandi. Dagdraumar eru miklu betri enda ræður maður þeim sjálfur.
En ef manni dreymir um nóttina þá er ég svo þreytt þegar ég vakna og er ekki útsofin. Dreymdi nefnilega í nótt en fór samt sem áður tiltölulega snemma að sofa en líka seint í nótt þá vakna ég smá upp og veit af mér það sem eftir lifði nætur. Minnsta kosti heyði ég þegar blessaði blaðberinn kom með fréttablaðið og held ábyggilega að hann hafi komið um 4 eða 5.
En allavega dreymdi mig í nótt um hryðjuverk og það er svo bein tenging frá því sem ég var að horfa á í sjónvarpinu fyrr um kvöldið. Nóttina áður dreymdi mig líka og þá um snáka og slöngur og það einnig var í sjónvarpinu rétt áður en ég sofnaði á laugardagskvöldinu.
En allavega er dauðþreytt núna!
laugardagur, janúar 19, 2008
Montblogg
Já verð að monta mig aðeins - er nefnilega enginn hér sem ég get montað mig við og því "verð" ég að nota netið.
Í einum kúrsi sem ég er í þá þurfum við að svara krossaspurningum eftir hvern kafla sem kennarinn opnar á einhverjum ákveðnum tímapunkti og hefur opið ákveðinn tíma, í þessu tilfelli um sex daga fyrir 4 kafla. Allavega ég byrjaði á fyrsta kafla einhvern tímann í vikunni og gekk ekki vel, notaði heldur ekkert bókina og ákvað að prófa hvernig mér gengi án þess að fletta upp. Kafli 2 gekk heldur betur en ekki nógu vel, kafli 3 aðeins betur og var sáttari. Kafli 4 er ég hæst ánægð með en fékk 9,15 og verð því að reyna að halda því sem eftir er :)
sunnudagur, janúar 13, 2008
Vegalengdir
Merkilegt hvernig vegalengdir eru stundum.
Til dæmis þá er vegalengdin Reykjavík-Njarðvík mun lengri heldur en Njarðvík-Reykjavík og það væri næstum því hægt að hafa þau rök fyrir dreifbýlistúttunum að vegna þess ættu þau frekar að koma til Reykjavíkur í heimsókn heldur en öfugt.
Ef það væri ekki fyrir þá staðreynd að dreifbýlistútturnar þurfa víst líka að fara aftur heim til sín og því þurfa þau þá að keyra löngu leiðina Reykjavík-Njarðvík. Sem gerir það að verkum að það er jafn langt fyrir okkur að fara á milli.
miðvikudagur, janúar 09, 2008
2 ár
Ótrúlegt hvað tíminn líður - í dag eru 2 ár síðan ég lenti og stóð á kínverskri grund. Jamm komin heil 2 ár síðan ég fór í reisuna mína.
Svo eru líka önnur tímamót 1. febrúar en þá eru 3 ár síðan ég fékk íbúðina mína afhenda og ef ég hefði búið í henni allan tímann þá væri það met hjá mér varðandi búsetu á sama stað. En þar sem eru 9 mánuðir af þessum 3 árum sem ég bjó ekki í íbúðinni minni þá get ég eiginlega ekki sagt það enn sem komið er.
###
Annars er ég þessa dagana að ákveða hvaða námskeið ég ætla í, lítur út fyrir að mánudagar verði pain hjá mér varðandi mætingu í skólann, er í einu námskeiði síðan þar sem eru 100 manns eða svo, erum í hinu nýja Háskólatorgi og það sem mér finnst alveg hreint met er að það eru engar innstungur, eru kannski um þrjár. En eru tveir skjávarpar þannig að skiptir ekki máli hvor megin í stofunni maður situr.
en já thats it...
mánudagur, janúar 07, 2008
Matarboð
Hélt "smá" matarboð í gær en byrjunin á því gekk ekki vel þar sem ég brenndi chilli pipar og hvítlauk í pottinum.
En þrátt fyrir byrjunarerfiðleika og mats án chilli pipars þá bragðaðist maturinn alveg ágætlega.
En það voru samt líka aðrir hlutir sem voru öðruvísi við þetta matarboð, til dæmis að einn matargestana þurfti skyndilega að fara til London þannig að sá mætti ekki sem kom svo í ljós að var mjög gott (ekki því hann vantaði) heldur var maturinn ekki nógur - hahaha þrátt fyrir að það sem ég var að elda átti að vera nóg fyrir 4.
Það sem var líka sérstakt að einn af matargestunum kom um 1,5 klst of seint þannig að eftir að hafa beðið í smá tíma ákváð ég og þessi eini matargestur að byrja, tókum okkur svo pásu og fengum okkur ábót þegar seinni matargestur kom (kannski skýring á því að maturinn kláraðist upp til agna ;) ).
Það þriðja sem gerði síðan útslagið að öðruvísi matarboði er að seini matargesturinn sofnaði í sófanum hjá mér :) - ákvað ekkert að vera að vekja aðilann og vonaðist bara að mundi sofa út alla nóttina og fór síðan inn að sofa. En matargesturinn vaknaði síðan um tvö leytið og hélt af stað heim á leið.
Því miður varð ég síðan hinsvegar andvaka eftir það og er því þreytt fyrsta skóladaginn og sleppti fyrsta tímanum sem ég ætlaði að mæta í. Mér til mikillar vonbrigða komst ég siðan að því að ég hefði getað sofið lengur því næsti tími var ekki.
En já þannig fór um fyrsta matarboð 2008 hjá mér.
fimmtudagur, janúar 03, 2008
Oh my god
Er enn í losti hérna....
Var nefnilega að fá einkunn úr hagfræði faginu sem ég var í, kostnaðar og nytjagreiningu.
Er ekki alveg að ná þessu enn..... ég náði, ég náði og var ekki heldur með lægstu einkunnina - var 0,5 frá meðaleinkunn.
Ég náði
oh my god
miðvikudagur, janúar 02, 2008
Nýtt ár
Það barasta skollið á nýtt ár!
Spennandi að sjá hvernig árið verður hjá mér :)
En það sem mér hefur tekist á þessu nýja ári "so far"
- eyðilagt peysu í þvotti (hún hljóp)
- klárað að horfa á þriðju seríu á Grey´s Anatomy
- verið á náttfötum til 21.30, klæddi mig til þess eins að hátta mig stuttu síðar
- borðað óhollustu
- þrifð
- og komin með Heima með Sigur rós
- og er enn að bíða eftir einkunnum.......