BLOGGER TEMPLATES - TWITTER BACKGROUNDS »

föstudagur, apríl 09, 2004

Skrifandi

Sit hérna fyrir framan tölvuna mína með Dido í geislaspilaranum og bíð eftir því að skrifaandinn komi yfir mig. Þó ekki til þess að geta skrifað hérna á bloggið heldur til þess að geta haldið áfram með ritgerðina mína. Með þessu áframhaldi þá kemur hann ekkert og því er það bara spurning um að bíta á jaxlinn og skrifa. Held ég hafi heldur ekki þennan skrifanda í mér yfir höfuð. Að minnsta kosti aldrei orðið hans vör.

Vaknaði í morgun með góð fyrirheit, var búin að ákveða að leyfa mér að sofa út sem ég og gerði því ég spilaði catan í gærkveldi heima hjá pabba til að verða hálf þrjú.
Þreif pleisið þegar ég komst úr rúminu og þegar ég var að ljúka við það þá hringdi Ásdís í mig til að athuga hvort ég vildi koma í Bláa lónið með henni og samvistarmaka mínum.... en ég var dugleg og stóðst freistinguna og hún Sigga má fá stórt samviskubit. En samt sem áður með þessu áframhaldi þá hefði ég bara betur átt að fara í lónið í staðinn fyrir að hanga heima og verða ekki neitt úr verki.

Svo ég tali nú aðeins meira um catan þá held ég þetta sé barasta ekki fjölskylduvænt spil, ýmis ljót orð sem fjúka og annað í þeim dúr. Þau hlógu bara að mér þegar ég sagði þetta og enn meira síðan þegar ég kallaði litlu systir mína druslu því hún eyðilagði eitthvað fyrir mér og ætlaði að afneita henni sem systur. Hér með biðst ég hana afsökunar á því og að sjálfsögu afneita ég henni ekki. Ég var samt sem áður ekki með versta orðbragðið, sum önnur ætla ég barasta ekki að hafa eftir :-), á tímabili var ég farin að óttast um sambandsslit og annað en sem betur fer voru bara komnar hótanir um að fara ekki með ákveðnum aðila í golf og svona. Spurning hvort einhver hafi þó sofið í sófanum.

Gott að ljúka þessu blaðri og fara að skrifa á öðrum stöðum, eitthvað sem þarf miklu frekar og græði mun meira á :-)

Linda ekki í skrifstuði

0 Mjálm: